Karlakórinn
Karlakórinn

Aðsent

Tímamót í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Laugardagur 16. júlí 2022 kl. 07:42

Tímamót í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum

Efling heilbrigðisþjónustu í heimabyggð

Hugsjónir mínar í stjórnmálastarfi miða meðal annars að því að auka lífsgæði íbúa út frá heilsueflingu, forvörnum og auknu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Góð andleg, líkamleg og félagsleg heilsa okkar er drifkraftur framsækis samfélags.

Nú hafa stór skref verið stigin á Suðurnesjum á þeirri vegferð með dyggum stuðningi frá stórum hópi fólks. Samtakamátturinn og samvinnan skilar okkur árangri þegar allir leggjast á eitt. Heilsugæslan er samkvæmt lögum fyrsti viðkomustaður okkar í heilbrigðiskerfinu og er þungamiðjan í heilbrigðisþjónustu í hverju samfélagi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Heilsugæsluþjónusta á Suðurnesjum hefur setið eftir undanfarna áratugi og ekki fylgt gríðarlegri íbúafjölgun á svæðinu. Það er því afar ánægjulegt og mikilvægt fyrir íbúa Suðurnesja að sjá raunverulegar aðgerðir raungerast.

Þjónustusvæði HSS á Suðurnesjum telur um 27.000 íbúa og býr við ansi þröngan húsnæðiskost. Stefnt er á að reisa nýja 1.350 fm2 heilsugæslu á næstu árum í Reykjanesbæ og hefur lóð undir þá starfsemi verið skilgreind í skipulagi í Innri-Njarðvík. Gert er ráð fyrir því að hún þjóni, sem fyrsti viðkomustaður, allt að 15.000 íbúum svæðisins.

Fyrsta sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðin utan höfuðborgarsvæðisins

Í síðustu viku voru stigin afar ánægjuleg skref þegar Sjúkratryggingar Íslands auglýstu eftir rekstaraðila fyrir nýja heilsugæslustöð við Aðaltorg í Reykjanesbæ. Rekstur stöðvarinnar byggir á sambærilegu rekstrarfyrirkomulagi og þekkist á höfuðborgarsvæðinu en fjármögnunarlíkanið er aðlagað heilsugæsluþjónustu á landsbyggðinni. Hin nýja heilsugæslustöð mun gefa íbúum svæðisins valkosti sem hingað til hafa aðeins staðið til boða á höfuðborgarsvæðinu. Heilsugæslustöðin á að geta þjónað allt að 11.000 íbúum og þar með létt undir með HSS sem mun áfram vinna að sínum metnaðarfullu áformum.

Framtíðarsýn sem borgar sig

Mikil fólksfjölgun og aukin umferð um alþjóðaflugvöllinn kallar á hraðari uppbyggingu á sviði heilbrigðismála á Suðurnesjum. Það er mín framtíðarsýn að á Suðurnesjum verði starfræktar þrjár heilsugæslur auk heilsugæslunnar í Grindavík og að heilsugæslusel verði staðsett bæði í Suðurnesjabæ og Vogum. Með því að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu á fyrsta stigi dregur úr líkunum á alvarlegum heilsubresti sem aftur dregur úr kostnaði til lengri tíma. Er ekki bara best að kjósa heilbrigðisþjónustu í heimabyggð?

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi